Stjarnfræðilega háar launakröfur

Erling Braut Haaland er eftirsóttur af stærstu félagsliðum heims.
Erling Braut Haaland er eftirsóttur af stærstu félagsliðum heims. AFP

Norski knattspyrnumaðurinn Erling Braut Haaland vill fá um 30 milljónir punda í árslaun hjá næsta félagsliði sínu en það samsvarar rúmlega 5,2 milljörðum íslenskra króna.

Það er Goal sem greinir frá þessu en Haaland er einn eftirsóttasti bitinn á leikmannamarkaðnum í dag.

Framherjinn er samningsbundinn Borussia Dortmund í Þýskalandi en hann er samningsbundinn þýska félaginu til sumarsins 2024.

Haaland hefur skorað 35 mörk í 35 leikjum með Dortmund á tímabilinu en hann er með klásúlu í samningi sínum sem gerir honum kleift að yfirgefa þýska félagið sumarið 2022 fyrir 67 milljónir punda.

Þrátt fyrir það gæti hann yfirgefið Dortmund í sumar en þýska félagið vill fá að minnsta kosti 130 milljónir punda fyrir Norðmanninn.

Hann hefur verið orðaður við öll stærstu félög Evrópu en Goal greinir frá því að alla vega eitt enskt félag hafi dregið sig úr kapphlaupinu um leikmanninn vegna launakrafna hans.

mbl.is