Skoraði í þriðja leiknum í röð

Birkir Bjarnason er að reynast liði Brescia drjúgur í baráttunni …
Birkir Bjarnason er að reynast liði Brescia drjúgur í baráttunni um að komast upp um deild. Ljósmynd/Brescia

Landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason heldur áfram að leika vel fyrir Brescia og skoraði í þriðja leiknum í röð þegar liðið vann góðan 3:0 útisigur gegn Vicenza í ítölsku B-deildinni í knattspyrnu í dag. Auk þess lagði hann upp mark.

Birkir kom Brescia á bragðið á 38. mínútu eftir undirbúning Alfredo Donnarumma, sem tvöfaldaði svo forystuna aðeins þremur mínútum síðar með marki úr vítaspyrnu.

Staðan 2:0 í hálfleik og samvinna þeirra Birkis og Donnarumma hélt áfram í þeim síðari þegar Birkir lagði upp annað mark Donnarumma á 50. mínútu leiksins.

Á 62. mínútu var Birkir svo tekinn af velli eftir ansi gott dagsverk.

Brescia sigldi að lokum öruggum 3:0 sigri í höfn.

Með sigrinum fer Brescia upp í 7. sæti deildarinnar, en liðin í 3.-8. sæti fara í umspil um að komast upp í A-deildina. Tvær umferðir eru nú eftir af ítölsku B-deildinni.

Birkir er sem áður segir búinn að skora í þremur leikjum í röð í ítölsku B-deildinni og er með sex mörk og þrjár stoðsendingar í 24 leikjum á tímabilinu.

Hólmbert Aron Friðjónsson var ekki í leikmannahópi Brescia í dag vegna meiðsla.

mbl.is