Hverjir myndu mætast í sextán liða úrslitum?

Ítalir voru sannfærandi þegar þeir unnu Tyrki í fyrsta leiknum …
Ítalir voru sannfærandi þegar þeir unnu Tyrki í fyrsta leiknum og þeir mæta Sviss annað kvöld. Eins og staðan er núna myndu þeir mæta Hollendingum í sextán liða úrslitum og það yrði afar áhugaverð viðureign. AFP

Fyrstu umferð riðlakeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu lauk í kvöld og þar með er komin staða í öllum sex riðlum hennar en út frá því má nú fara að skoða hvaða lið gætu mæst í sextán liða úrslitum keppninnar.

Að sjálfsögðu er allt galopið eftir að hvert lið hefur leikið einn leik og í sumum tilvikum þarf að láta stafrófsröð ráða til að „úrskurða“ um sæti.

Þannig eru Danmörk, Króatía og Þýskaland með sama árangur í þriðja sæti riðlanna, töpuðu öll 0:1, en aðeins eitt þeirra kæmist áfram. Við látum stafrófsröðina ráða og hleypum Dönum áfram en Króatar og Þjóðverjar sitja eftir sem stendur.

Þessi lið myndu sem sagt mætast í 16-liða úrslitum ef þeim er stillt upp út frá fyrstu umferðinni:

Belgía (B1) - Wales (A3)
Ítalía (A1) - Holland (C2)
Portúgal (F1) - Danmörk (B3)
England (D2) - Spánn (E2)
Slóvakía (E1) - Úkraína (C3)
Tékkland (D1) - Frakkland (F2)
Austurríki (C1) - Svíþjóð (E3)
Sviss (A2) - Finnland (B2)

Auk Króatíu og Þýskalands væru Tyrkland, Rússland, Norður-Makedónía, Skotland, Pólland og Ungverjaland úr leik sem neðstu lið riðlanna sex.

Önnur umferð riðlakeppninnar hefst á morgun með þremur leikjum. Finnland og Rússland mætast í B-riðli klukkan 13, Tyrkland og Wales í A-riðli klukkan 16 og Ítalía og Sviss í A-riðli klukkan 19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert