Svíar á toppinn eftir nauman sigur

Alexander Isak reyndist Slóvökum erfiður ljár í þúfu í dag.
Alexander Isak reyndist Slóvökum erfiður ljár í þúfu í dag. AFP

Svíþjóð er komin á topp E-riðils Evrópumótsins í knattspyrnu karla, að minnsta kosti tímabundið, eftir 1:0-sigur gegn Slóvakíu í dag. Sigurmarkið kom úr vítaspyrnu seint í leiknum.

Hér um bil ekkert markvert gerðist í fyrri hálfleik, fyrir utan fínt skot Mareks Hamsiks við D-bogann sem fór rétt yfir markið.

Eftir bragðdaufan og markalausan fyrri hálfleik lifnaði talsvert yfir leiknum í þeim síðari.

Eftir tæplega klukkutíma fékk vinstri bakvörðurinn Ludwig Augustinsson frían skalla fyrir miðjum teignum eftir frábæra fyrirgjöf Sebastians Larssons en Martin Dubravka í marki Slóvaka varði stórkostlega aftur fyrir.

Upp úr hornspyrnunni kom svo annað gott skallafæri. Larsson tók hornspyrnuna og fann þar Alexander Isak sem skallaði boltann áfram til Marcus Danielson sem skallaði rétt yfir af stuttu færi.

Enn annað skallafæri fór forgörðum á 67. mínútu þegar góð fyrirgjöf Mikaels Lustigs endaði á kollinum á Isak en boltinn endaði ofan á markinu.

Skömmu síðar, á 72. mínútu, átti Isak magnaðan sprett þar sem hann lék á nokkra leikmenn Slóvaka, tók síðan gott skot innan teigs eftir Slóvaka en Dubravka náði naumlega að verja.

Á 75. mínútu átti Isak laglega stungusendingu inn fyrir á Robin Quaison, sem reyndi að fara framhjá Dubravka en markvörðurinn braut á honum innan vítateigs og vítaspyrna dæmd.

Á vítapunktinn steig Emil Forsberg og skoraði hann með föstu skoti í hægra hornið, þótt Dubravka hafi valið rétt horn, 1:0.

Á 82. mínútu hélt Isak áfram að valda Slóvökum vandræðum þegar hann fór framhjá þeim nokkrum en missti svo boltann, sem barst til Viktors Claessons sem náði skoti úr mjög góðu færi en varnarmaður Slóvakíu komst fyrir það.

Slóvakar, sem voru arfaslakir í síðari hálfleik, settu talsverða pressu á Svía undir lok leiksins en sænska vörnin hélt vel.

1:0-sigur Svíþjóðar, sem hefur haldið hreinu í báðum leikjum sínum til þessa, því niðurstaðan.

Svíþjóð er nú í efsta sæti E-riðils með fjögur stig og Slóvakía í öðru með þrjú.

Spánn og Pólland fylgja svo þar á eftir en þau mætast á morgun og þá gæti staða riðilsins breyst eitthvað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert