Freyr tekinn við Lyngby

Freyr Alexandersson er nýr aðalþjálfari Lyngby.
Freyr Alexandersson er nýr aðalþjálfari Lyngby. Ljósmynd/Lyngby BK

Danska B-deildarfélagið Lyngby er búið að tilkynna um ráðningu Freys Alexanderssonar sem nýs aðalþjálfara félagsins. Hann skrifar undir tveggja ára samning.

Freyr var síðast aðstoðarþjálf­ari Heim­is Hall­gríms­son­ar hjá Al-Ar­abi í Kat­ar og var þar á und­an aðstoðarþjálf­ari Eriks Hamréns hjá ís­lenska karla­landsliðinu í knatt­spyrnu.

Hann hefur störf hjá Lyngby strax á morgun.

Á heimasíðu Lyngby segir að sambland af fagmennsku, metnaði og persónuleika hafi haft mikið að segja þegar kom að ákvörðuninni um að ráða Frey.

„Það hefur skipt okkur miklu máli að finna þjálfara sem passar inn í félagið okkar sem manneskja, kaupir inn í stefnu okkar og hvernig skuli þróa leikmenn, og er með metnað til þess að koma okkur aftur upp um deild.

Hvað varðar fagmennsku, persónuleika og metnað höfum við litið á Freyr sem virkilega góðan kost fyrir Lyngby og því erum við ánægðir með að Freyr hafi samþykkt að taka að sér starf aðalþjálfara, “sagði Andreas Byder stjórnarformaður í samtali við heimasíðu Lyngby.

Lyngby féll úr dönsku úrvalsdeildinni á liðnu tímabili en stefnir að því að komast beint upp aftur á því næsta.

mbl.is