Heimsmeistararnir voru 3:1 yfir en eru úr leik

Yann Sommer fagnar ógurlega eftir að hafa tryggt Sviss sæti …
Yann Sommer fagnar ógurlega eftir að hafa tryggt Sviss sæti í 8-liða úrslitum. AFP

Sviss sló Frakkland út í 16 liða úrslitum Evrópumóts karla í knattspyrnu þegar liðin mættust á  þjóðarleikvanginum í Búkarest í Rúmeníu í dag. Vítaspyrnukeppni þurfti til að knýja fram úrslit. 

Heimsmeistararnir eru því úr leik en Sviss er komið í 8-liða úrslit og mætir þar Spánverjum. 

Ævintýralegur dagur að baki á EM þar sem staðan í báðum leikjunum var 3:3 að loknum venjulegum leiktíma. 

Sveiflurnar í leik Frakklands og Sviss voru geysilega miklar. Haris Seferovic skoraði fyrsta markið eftir korter með hörkuskalla. Sviss var 1:0 yfir að loknum fyrri hálfleik og fékk upplagt tækifæri til að komast 2:0 yfir þegar Sviss fékk vítaspyrnu á 54. mínútu. Hugo Lloris kom þá Frökkum til bjargar og varði vítaspyrnu Ricardo Rodríguez. 

Haris Seferovic skallar í netið hjá Frökkum.
Haris Seferovic skallar í netið hjá Frökkum. AFP

Engu líkara var en tilþrif Lloris hafi verið eins og stór skammtur af örvandi fyrir Frakkana. Þeir tóku skyndilega við sér og skoruðu tvö mörk á tveggja mínútna kafla. Markahrókurinn Karim Benzema var þar á ferðinni í báðum tilfellum og skoraði alls fjögur mörk í keppninni. Mörkin skoraði Benzema af stuttu færi á 57. og 59. mínútu.

Gæfan virtist brosa við Frökkum þegar ólíkindatólið Paul Pogba sýndi sparihliðarnar og skoraði ljómandi fallegt mark með skoti fyrir utan vítateig á 75. mínútu. 

Ef til vill hafa Svisslendingar hugsað til Króata sem fyrr í dag náðu að jafna 3:3 gegn Spáni á lokakaflanum eftir að hafa lent 1:3 undir. Svisslendingar léku það eftir. Seferovic skoraði annað skallamark á 81. mínútu og á 90. mínútu jafnaði Mario Gavranovic með nákvæmu skoti. 

Tellískir tilburðir

Framlengingin skilaði ekki mörkum eða niðurstöðu og því var gripið til vítaspyrnukeppni. Í fyrsta skiptið á þessu stórmóti. 

Til að gera langa sögu stutta þá sýndu Svisslendingar tilburði á vítapunktinum sem William Tell hefði verið stoltur af og skoruðu úr öllum fimm spyrnum sínum.

Frakkar skoruðu úr fyrstu fjórum og þá var öll pressan á Kylian Mbappé sem tók síðasta víti Frakka. Þá var allt undir og hann stóðst ekki pressuna en þess má geta að Mbappé var haltrandi þegar um tíu mínútur voru eftir af framlengingunni. Hvort sem það skipti máli eða ekki. Yann Sommer valdi rétt horn og varði vel. 

Kylian Mbappe niðurlútur eftir missheppnaða vítaspyrnu.
Kylian Mbappe niðurlútur eftir missheppnaða vítaspyrnu. AFP

Svisslendingar fögnuðu ógurlega sem skiljanlegt er. Þeir virtust vera á útleið úr keppninni en lögðu ekki árar í bát og uppskáru eftir erfiðan leik.

Svisslendingar hafa oft reynst erfiður andstæðingur. Argentína þurfti til að mynda framlengingu til að slá Sviss út á HM 2014. Ekki þarf heldur að spyrja okkur Íslendinga út í styrk svissneska liðsins. Sviss vann Ísland mjög örugglega í tvígang í Þjóðadeildinni 2018. 

Frakkland 7:8 Sviss opna loka
120. mín. Xherdan Shaqiri (Sviss) á skot framhjá reyndi skot úr aukaspyrnu en skaut hátt yfir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert