Kolbeinn settur í bann hjá Gautaborg

Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kolbeinn Sigþórsson hefur verið settur í ótímabundið leyfi hjá sænska knattspyrnufélaginu Gautaborg og fær ekki að æfa eða spila með liðinu á meðan mál hans er rannsakað.

Félagið tilkynnti þetta í dag í kjölfarið á málum Kolbeins á Íslandi þar sem hann var settur út úr íslenska landsliðshópnum.

Gautaborg sendi frá sér tilkynningu þar sem sagt var að innri rannsókn hjá félaginu á málum Kolbeins væri hafin og niðurstaðan úr henni myndi ákvarða um hvort hann yrði áfram í röðum þess.

Håkan Mild, yfirmaður knattspyrnumála hjá Gautaborg sagði við Fotbollskanalen að engar tímasetningar lægju fyrir um hvenær ákvörðun yrði tekin. Nokkrir af stuðningsmannahópum félagins hafa krafist þess að Kolbeinn yrði rekinn frá félaginu vegna ásakana um kynferðislegt ofbeldi sem fjallað hefði verið um á Íslandi.

mbl.is