Neyðarfundur í Barcelona

Leikmenn Barcelona áttu fá svör gegn Þýskalandsmeisturunum í gær.
Leikmenn Barcelona áttu fá svör gegn Þýskalandsmeisturunum í gær. AFP

Joan Laporta, forseti spænska íþróttafélagsins Barcelona, boðaði til neyðarfundur í höfuðstöðvum félagsins eftir 0:3-tap liðsins gegn Bayern München í Meistaradeildinni í Barcelona í gær. Það er Marca sem greinir frá þessu.

Ásamt Laporta sátu meðal annars þeir Rafa Yuste, varaforseti félagsins og Mateu Alemany, stjórnarformaður félagsins, fundinn ásamt hefðbundnum stjórnarmeðlimum.

Fundurinn stóð yfir til klukkan tvö um nóttina en frammistaða liðsins í leiknum gegn Bayern var arfaslök og áttu Börsungar ekki skot á markið.

Framtíð Ronalds Koemans, stjóra liðsins, var meðal annars til umræðu á fundinum en hann mun að öllum líkindum stýra Barcelona áfram næstu mánuðina.

Fjárhagsstaða Barcelona er vægast sagt slæm en félag missti leikmenn á borð við Lionel Messi og Antoine Griezmann í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert