Þeir hafa höndlað mál Kolbeins vel

Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Robert Laul, knattspyrnusérfræðingur Göteborgs-Posten, segir að IFK Gautaborg hafi ekki átt neinn rétt á því að segja Kolbeini Sigþórssyni upp störfum og að félagið hafi höndlað mál hans vel.

Kolbeinn var sendur í leyfi hjá félaginu á dögunum í kjölfar þess að honum var vikið úr íslenska landsliðshópnum eftir að gert var opinbert að hann hefði verið ásakaður um að hafa beitt konu kynferðislegu ofbeldi á skemmtistað í Reykjavík árið 2017.

Í gær tilkynnti svo IFK Gautaborg að félagið myndi standa við bakið á Kolbeini sem færi í persónulega endurhæfingu vegna málsins, ásamt því að fara í aðgerð á fæti og í hefðbundna endurhæfingu vegna hennar.

„Þeir hafa engan rétt til þess að rifta samningi hans við félagið því þeir atburðir sem um er að ræða áttu sér stað fyrir löngu og áður en hann varð leikmaður hjá IFK Gautaborg. En þeir eru sem vinnuveitendur skyldugir samkvæmt lögum að styðja hann í þessari stöðu. Ég tel að félagið hafi höndlað málið vel," sagði Laul í spjallþætti hjá Göteborgs-Posten.

mbl.is

Bloggað um fréttina