Ajax með fullt hús stiga – Inter í vandræðum

Steven Berghuis fagnar marki sínu í kvöld ásamt Daley Blind.
Steven Berghuis fagnar marki sínu í kvöld ásamt Daley Blind. AFP

Hollandsmeistarar Ajax halda góðu gengi sínu C-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla áfram en í annarri umferð riðilsins í kvöld unnu þeir þægilegan 2:0 sigur gegn Besiktas eftir að hafa unnið Sporting frá Lissabon 5:1 í fyrstu umferð.

Í leik kvöldsins skoraði Steven Berghuis fyrra mark Ajax á 17. mínútu eftir laglegan undirbúning Dusan Tadic.

Berghuis lagði svo sjálfur upp síðara markið á 43. mínútu þegar Sébastien Haller skoraði af stuttu færi.

Þar við sat og Ajax er eftir sigurinn á toppi C-riðils með fullt hús stiga, 6 stig, að loknum tveimur umferðum.

Einum öðrum leik er lokið í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Shakhtar Donetsk og Internazional frá Mílanó gerðu markalaust jafntefli í Úkraínu.

Bæði lið hófu keppni á því að tapa leikjum sínum í D-riðlinum, Shakhtar á útivellu gegn Sheriff Tiraspol frá Moldóvu og Inter á heimavelli gegn Real Madríd, og eru því aðeins með eitt stig hvort að loknum tveimur umferðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert