Semur við Ajax til hálfs fimmta árs

Kristian Nökkvi Hlynsson í leik Íslands og Grikklands í Evrópukeppni …
Kristian Nökkvi Hlynsson í leik Íslands og Grikklands í Evrópukeppni 21 árs landsliða í haust. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristian Nökkvi Hlynsson, knattspyrnumaðurinn efnilegi, hefur gert nýjan samning við hollenska stórveldið Ajax til hálfs fimmta árs, eða til sumarsins 2026. Ajax staðfesti þetta á heimasíðu sinni í morgun.

Kristian, sem varð 18 ára síðasta sunnudag, hefur verið í röðum Ajax í tvö ár. Hann leikur nú sitt annað tímabil með varaliði félagsins í hollensku B-deildinni en hefur á síðustu vikum jafnframt leikið tvo fyrstu leiki sína með aðalliði Ajax, í hollensku bikarkeppninni, og skorað í þeim báðum.

Þá er Kristian kominn í íslenska 21 árs landsliðið, þrátt fyrir að vera ekki eldri, en hann lék fjóra leiki með því á síðasta ári og skoraði eitt mark. Til viðbótar á hann að baki 15 leiki með yngri landsliðunum. Kristian lék einn leik með Breiðabliki í úrvalsdeildinni árið 2019, þá aðeins 15 ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert