Stuðningsmaður Forest skallaði leikmann Sheffield United (myndskeið)

Billy Sharp hefur raðað inn mörkum fyrir Sheffield United undanfarin …
Billy Sharp hefur raðað inn mörkum fyrir Sheffield United undanfarin ár. Ljósmynd/@SUFC_tweets

Ljótt atvik átti sér stað eftir leik Nottingham Forest og Sheffield United þegar stuðningsmenn Forest hlupu inn á völlinn í kjölfar sigur liðsins í vítaspyrnukeppni í öðrum leik undanúrslita umspils ensku B-deildar karla í knattspyrnu um eitt laust sæti í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Billy Sharp, leikmaður Sheffield United, stóð á hliðarlínunni í leikslok þegar stuðningsmenn Forest fjölmenntu á völlinn.

Vissi hann ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar einn stuðningsmaður Forest skallaði hann harkalega í jörðina.

Samkvæmt Yorkshire Live hlaut Sharp, sem tók ekki þátt í leik kvöldsins vegna meiðsla, aðhlynningu í kjölfarið á vellinum þar sem sauma þurfti nokkur spor í vör hans.

„Þetta er árás. Það er ráðist á einn leikmanna okkar. Hann er í áfalli, það blæðir úr honum og hann er reiður. Við munum fara með þetta lengra,“ sagði Paul Heckingbottom, knattspyrnustjóri Sheffield United, í samtali við Sky Sports eftir leik.

mbl.is