Bæði Íslendingaliðin í úrvalsdeildina

Freyr Alexandersson er kominn með Lyngby upp í úrvalsdeildina.
Freyr Alexandersson er kominn með Lyngby upp í úrvalsdeildina. Ljósmynd/lyngby-boldklub.dk

Íslendingaliðin Horsens og Lyngby tryggðu sér bæði í kvöld sæti í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar næstsíðasta umferðin í úrslitakeppni B-deildarinnar var leikin.

Horsens sótti Fredericia heim og vann sannfærandi sigur, 4:0. Aron Sigurðarson lagði upp annað mark liðsins í fyrri hálfleik og spilaði fyrstu 73 mínútur leiksins.

Þar sem Helsingör  tapaði fyrir Hvidovre dugði Lyngby að gera jafntefli, 1:1, við Nyköbing á útivelli. Lyngby fékk á sig jöfnunarmark í uppbótartíma en það kom ekki að sök. Sævar Atli Magnússon kom inn á hjá Lyngby á 70. mínútu og Frederik Schram var varamarkvörður liðsins.

Freyr Alexandersson tók við þjálfun Lyngby síðasta sumar og hefur nú tekist að koma liðinu upp í úrvalsdeild í fyrstu tilraun.

Þegar ein umferð er eftir af úrslitakeppninni er Horsens með 63 stig, Lyngby 60, Hvidovre 56, Helsingör 55, Fredericia 50 og Nyköbing 32 stig, en þessi lið voru í sex efstu sætunum að hefðbundinni deildarkeppni lokinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert