Ekki refsað þrátt fyrir kynferðisofbeldi

Siðanefnd FIFA ákvað að refsa ekki Guacci.
Siðanefnd FIFA ákvað að refsa ekki Guacci. AFP/Ozan Kose

Samtök atvinnuknattspyrnumanna, FiFPRO, hefur lýst yfir áhyggjum vegna ákvörðunar siðanefndar FIFA að refsa ekki Diego Guacci, tæknilegum ráðgjafa U17 og U15 ára landsliða Argentínu í kvennaflokki.

Guacci hefur m.a. verið ásakaður um kynferðislega áreitni í garð leikmanna beggja liða. Alls kvörtuðu fimm leikmenn liðsins til FIFA og sökuðu hann um kynferðislegt áreiti og andlegt ofbeldi. Leikmennirnir eru 14 og 15 ára.

„Leikmenn sýndu mikið hugrekki með að tilkynna hegðun Guacci og leggja sitt af mörkum til að gera fótboltann að öruggari stað. Ákvörðun FIFA er furðuleg og kemur í veg fyrir að leikmenn tilkynni svipuð brot í framtíðinni,“ segir m.a. í yfirlýsingu FiFPRO.

Siðanefnd FIFA komst að þeirri niðurstöðu að Guacci hafi mistekist að vernda leikmennina og gerst sekur um andlegt ofbeldi. Í skýrslu nefndarinnar kemur einnig fram að hann hafi áreitt einn leikmann kynferðislega, sýnt henni kynferðislegt efni og beðið hana um að senda myndir af sér. Þrátt fyrir það ákvað nefndin að refsa Guacci ekki.

mbl.is