Ísland stendur í stað á FIFA-listanum

Íslenska karlalandsliðið er áfram í 63. sæti á styrkleikalista FIFA.
Íslenska karlalandsliðið er áfram í 63. sæti á styrkleikalista FIFA. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu heldur kyrru fyrir í 63. sæti á nýjum styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, sem var gefinn út í morgun.

Innan Evrópu fer Ísland hinsvegar upp um eitt sæti, úr 32. sæti af 55 þjóðum í það 31. og fer uppfyrir Norður-Makedóníu.

Brasilía heldur kyrru fyrir í efsta sæti listans og Belgía er áfram í öðru sæti. Argentína fer upp í þriðja sæti og Frakkland niður í það fjórða.

England er enn í fimmta sæti, Spánn fer upp í sjötta sæti og Holland upp í áttunda sæti. Ítalía fer niður í sjöunda sæti og Portúgal niður í níunda sæti.

Af Norðurlandaþjóðunum er Danmörk langefst; fer upp í 10. sæti listans og er til að mynda fyrir ofan Þýskaland sem er í 11. sæti.

Svíþjóð er í 20. sæti, Noregur er komið upp í 36. sæti, Finnland er í 59. sæti og Færeyjar í 125. sæti.

San Marínó er sem fyrr í 211. sæti, neðsta sæti listans.

Listann má sjá í heild sinni á heimasíðu FIFA.

mbl.is