Rooney segir starfi sínu lausu

Wayne Rooney verður ekki áfram við stjórnvölinn hjá Derby County.
Wayne Rooney verður ekki áfram við stjórnvölinn hjá Derby County. AFP

Wayne Rooney hefur sagt starfi sínu sem knattspyrnustjóri enska C-deildarliðsins Derby County lausu.

Rooney átti eitt ár eftir af samningi sínum en hefur ákveðið að yfirgefa félagið.

Derby hefur verið í greiðslustöðvun frá því í september á síðasta ári og hefur átt í miklum erfiðleikum með að finna nýja eigendur.

Vegna greiðslustöðvunarinnar var 21 stig tekið af liðinu í ensku B-deildinni, sem varð að lokum til þess að það féll niður í C-deild.

Rooney virtist ætla að halda kyrru fyrir þrátt fyrir fallið en lætur nú tafarlaust af störfum.

„Mér finnst sem að nú þurfi einhver með ferska orku, sem hefur ekki þurft að láta atburði síðustu 18 mánaða hafa áhrif á sig, að leiða félagið,“ sagði Rooney í yfirlýsingu.

Hann tilkynnti Quantuma, fyrirtækinu sem er Derby til halds og trausts vegna greiðslustöðvunarinnar, um ákvörðun sína í morgun. Forsvarsmenn fyrirtækisins reyndu að fá Rooney til að snúast hugur en tókst ekki.

„Tími minn hjá félaginu hefur verið tilfinningarússíbani með hæðum og lægðum en ég verð að segja að naut áskorunarinnar.

Að lokum er mér kunnugt um að enn eru áhugasamir aðilar sem vilja taka yfir eignarhaldið á félaginu. Við þá segi ég: Derby County er frábært félag með magnaða sögu og stórkostlega stuðningsmenn. Ég óska ykkur öllum góðs gengis og velmegnunar í framtíðinni,“ bætti Rooney við í yfirlýsingunni.

mbl.is