Bayern staðfestir samninginn við Cecilíu

Cecilía Rán Rúnarsdóttir á landsliðsæfingu.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir á landsliðsæfingu. mbl.is/Hákon

Þýska knattspyrnufélagið Bayern München skýrði frá því formlega í dag að félagið hefði samið við íslenska landsliðsmarkvörðinn Cecilíu Rán Rúnarsdóttur til fjögurra ára.

Samningurinn var frágenginn í byrjun maí eins og mbl.is skýrði frá á sínum tíma en er fyrst opinberaður í dag.

Cecilía kemur til Bayern frá Everton á Englandi, sem hún samdi við á síðasta ári en gat aldrei spilað með þar sem hún fékk ekki atvinnuleyfi á Englandi. Hún lék með Örebro í Svíþjóð á síðasta ári og kom síðan til Bayern snemma á þessu ári. 

Hún hafði leikið einn deildarleik með aðalliði Bayern þegar hún handarbrotnaði og missti af síðustu vikum keppnistímabilsins en Cecilía er nú á fullri ferð með íslenska landsliðinu í undirbúningi fyrir Evrópumótið sem hefst á Englandi í vikunni.

mbl.is