Benzema klúðraði víti í jafntefli Real Madrid

Karim Benzema.
Karim Benzema. AFP/Javier Soriano

Real Madrid og Osasuna mættust á Bernabéu-vellinum í sjöundu umferð spænsku 1. deildarinnar í fótbolta í kvöld.

Madrídingar voru með fullt hús stiga fyrir leikinn og freistuðu þess að komast fyrir ofan Barcelona á toppinn. Gestirnir í Osasuna hafa hins vegar reynst mjög seigir í ár og höfðu aðeins fengið á sig fimm mörk fyrir leikinn í kvöld.

Vinicius Junior kom heimamönnum yfir á 42. mínútu og staðan var 1:0 þegar liðin gengu til búningsherbergja. Kike jafnaði svo metin fyrir gestina í Osasuna þegar fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Madrid fékk þá gullið tækifæri til að komast yfir á nýjan leik þegar Karim Benzema féll við í teignum. David Garcia var rekinn af velli fyrir brotið og Benzema fór sjálfur á punktinn en skot hans hafnaði í þverslánni.

Þrátt fyrir að vera manni fleiri síðustu 12 mínúturnar eða svo tókst Real Madrid ekki að knýja fram sigurmark og var 1:1 jafntefli því niðurstaðan.

Real Madrid er með 19 stig, líkt og Barcelona en síðarnefnda liðið er með betri markatölu. Osasuna er í 6. sæti með 13 stig.

mbl.is