Bayern lagði Barcelona – Juventus tapaði

Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá …
Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Bayern München. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bayern München jafnaði Barcelona að stigum á toppi D-riðils Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar liðin mættust í Þýskalandi.

Leiknum lauk með 3:1-sigri þýska liðsins þar sem þær Lina Magull, Lea Schüller og Klara Bühl skoruðu mörk þýska liðsins. 

Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Bayern og Cecilía Rán Rúnarsdóttir var ónotaður varamaður. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er frá keppni vegna meiðsla.

Bayern München er með 9 stig í efsta sætinu, líkt og Barcelona, sem er með mun betra markatölu en Benfica kemur þar á eftir með 6 stig og Rosengård er á botninum án stiga.

Þá kom Sara Björk Gunnarsdóttir inn á sem varamaður hjá Juventus á 80. mínútu þegar liðið tapaði 0:1 á útivelli gegn Arsenal.

Vivianne Miedema skoraði sigurmark leiksins strax á 17. mínútu en Juventus er í þriðja sæti C-riðils með 5 stig, tveimur stigum minna en Lyon og fimm stigum minna en Arsenal, þegar tvær umferðir eru eftir af riðlakeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert