Kolbeinn orðinn lærisveinn Freys

Kolbeinn Birgir Finsson er orðinn leikmaður Lyngby í Danmörku.
Kolbeinn Birgir Finsson er orðinn leikmaður Lyngby í Danmörku. Ljósmynd/Lyngby

Knattspyrnumaðurinn Kolbeinn Birgir Finnsson hefur gert tveggja og hálfs árs samning við danska úrvalsdeildarfélagið Lyngby. Hann kemur til félagsins frá Dortmund í Þýskalandi.

Kolbeinn hefur leikið með varaliði Dortmund frá árinu 2019 í þriðju efstu deild Þýskalands, en hann lék aldrei með aðalliði félagsins.

Hann er uppalinn hjá Fylki en fór ungur að árum til Groningen í Hollandi, þar sem hann lék með varaliði félagsins. Eftir það lá leiðin til Brentford á Englandi, þar sem hann lék einnig með varaliðinu. Hann var lánaður til Fylkis seinni hluta sumarsins 2019 og stóð sig vel.

Í kjölfarið var hann keyptur til Dortmund, þar sem hann lék yfir 70 leiki í þriðju deild. Kolbeinn hefur leikið tvo A-landsleiki og fjölmarga leiki fyrir yngri landsliðin.

Kolbeinn verður samherji Sævars Atla Magnússonar og Alfreðs Finnbogasonar hjá Lyngby. Freyr Alexandersson þjálfar liðið.

Lyngby er nýliði í efstu deild og er liðið í botnsæti deildarinnar með átta stig, sex stigum frá Aalborg sem er í sætinu fyrir ofan.

mbl.is