Skoraði sitt fyrsta mark í keppnisleik eftir baráttu við krabbamein

Sébastien Haller fagnar marki sínu í gær ásamt Jude Bellingham.
Sébastien Haller fagnar marki sínu í gær ásamt Jude Bellingham. AFP/Sascha Schurmann

Sébastien Haller var á skotskónum hjá Borussia Dortmund þegar liðið vann öruggan 5:1-sigur á Freiburg í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu karla í gær.

Haller var keyptur til Dortmund frá Ajax síðastliðið sumar en skömmu eftir það greindist hann með illkynja krabbamein í eista.

Eftir tvær skurðaðgerðir og lyfjameðferð sigraðist sóknarmaðurinn á meininu og hóf hefðbundnar æfingar með Dortmund í desember síðastliðnum.

Hann lék svo sinn fyrsta keppnisleik fyrir liðið í janúar og skoraði sitt fyrsta mark í sínum fjórða keppnisleik í gær, snemma í síðari hálfleik og kom Dortmund þá í 3:1.

Var Haller, sem er 28 ára landsliðsmaður Fílabeinsstrandarinnar, í byrjunarliðinu í gær og var svo skipt af velli eftir rúmlega klukkutíma leik.

Liðsfélagar Haller áttu auðvelt með að samgleðjast sóknarmanninum eftir að …
Liðsfélagar Haller áttu auðvelt með að samgleðjast sóknarmanninum eftir að hann skoraði. AFP/Sascha Schurmann
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka