Þrjú Íslendingalið í undanúrslitin

Guðný Árnadóttir og samherjar í AC Milan slógu Fiorentina út …
Guðný Árnadóttir og samherjar í AC Milan slógu Fiorentina út og fara í undanúrslitin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrjú Íslendingalið, AC Milan, Juventus og Inter Mílanó, eru komin í undanúrslitin í ítölsku bikarkeppninni í knattspyrnu í kvennaflokki.

Guðný Árnadóttir hafði betur gegn Alexöndru Jóhannsdóttur þó viðureign AC Milan og Fiorentina hefði endað 1:1. AC Milan vann fyrri leikinn í Flórens, 1:0, og vann því 2:1 samanlagt. Íslensku landsliðskonurnar léku báðar allan leikinn en það var sænski landsliðsframherjinn Kosovare Asllani sem skoraði mark AC Milan áður en landa hennar Pauline Hammarlund jafnaði fyrir Fiorentina.

Sara Björk Gunnarsdóttir kom aftur inn í byrjunarlið Juventus eftir fjarveru vegna meiðsla og spilaði fyrstu 57 mínúturnar þegar liðið vann Chievo Verona, 3:0. Juventus vann einvígið mjög örugglega, 6:0 samanlagt.

Inter Mílanó komst áfram í vítaspyrnukeppni eftir magnað einvígi við Sampdoria. Inter stóð vel að vígi eftir sigur á útivelli, 3:2, í fyrri leiknum, og virtist með allt í sínum höndum í hálfleik í dag. Þá stóð 3:0 fyrir Inter og því 6:2 samanlagt. En Sampdoria skoraði fjögur mörk í síðari hálfleik, vann leikinn 4:3, og liðin voru því jöfn, 6:6 samanlagt.

Ekkert mark var skorað í framlengingu en Inter vann vítakeppnina, 5:4, eftir sex umferðir. Anna Björk Kristjánsdóttir var ekki í leikmannahópi Inter að þessu sinni.

Fjórða liðið í undanúrslitum er Roma sem vann Pomigliano, 2:0, og 10:1 samanlagt.

mbl.is