Dæmdi mark af með hjálp síma áhorfanda og úrskurðaður í bann

Knattspyrnusamband Egyptalands hefur úrskurðað egypskan dómara í bann frá dómgæslu um óákveðinn tíma eftir að hann studdist við myndskeið á síma áhorfanda til þess að dæma mark af í leik í næstefstu deild í síðustu viku.

VAR-tæknin er ekki í notkun í næstefstu deild í Egyptalandi en ákvað dómarinn Mohamed Farouk, að horfa á endursýningu af marki í leik Suez og Al-Nasr í síma áhorfanda.

Al-Nasr taldi sig hafa jafnað metin í 2:2 seint í leiknum. Leikmenn Suez mótmæltu og vildu fá dæmda hendi í aðdraganda marksins. Eftir að Farouk skoðaði atvikið lengi í símanum ákvað hann að dæma markið af.

Eins og gefur að skilja hafði Farouk ekki leyfi til þess að styðjast við utanaðkomandi myndskeið í dómgæslu sinni og hefur allt dómarateymið í leiknum verið úrskurðað í bann um óákveðinn tíma.

Þar sem Farouk tók sér afar langan tíma til þess að skoða mark Al-Nasr í símanum voru 15 mínútur leiknar í uppbótartíma, þar sem Suez skoraði eitt mark til viðbótar og tryggði sér þannig 3:1-sigur.

Farouk yfirgaf völlinn í lögreglufylgd þar sem leikmenn og starfsfólk Al-Nasr mótmælti hástöfum. Félagið hyggst sækja dómarann til saka fyrir að brjóta reglur egypska knattspyrnusambandsins.

mbl.is