UEFA rannsakar Barcelona fyrir spillingu

Barcelona sætir rannsókn.
Barcelona sætir rannsókn. AFP/Josep Lago

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, mun setja á fót rannsókn á spænska félaginu Barcelona vegna greiðslna hárra fjárhæða til fyrrverandi varaforseta dómarasamtaka Spánar.

Barcelona er gefið að sök að hafa greitt José Enríquez Negreira og fyrirtæki hans, Dasnil 95, himinháar fjárhæðir, alls 8,4 milljónir evra, sem er mun hærri upphæð en áður var talið, með það fyrir augum að hann myndi hygla karlaliðinu við val á dómurum í leikjum á Spáni.

Dómstóll í Barcelona hefur ákært félagið fyrir spillingu, trúnaðarbrest og skjalafölsun. Josep Maria Bartomeu og Sandro Rosell, fyrrverandi forsetar félagsins, hafa einnig verið ákærðir ásamt Enríquez Negreira.

UEFA hefur ráðið siða- og agaeftirlitsmenn til þess að framkvæma rannsókn á mögulegum brotum Barcelona gegn lagaramma sambandsins.

Félagið gengst við því að hafa innt greiðslurnar af hendi á árunum 2001 til 2018 en kvaðst í yfirlýsingu ekki hafa gert neitt rangt.

Það hafi einungis fengið Dasnil 95 til ut­anaðkom­andi ráðgjafar í því skyni að verða félag­inu úti um mynd­bands­skýrsl­ur um unga og efni­lega leik­menn víðs veg­ar á Spáni og að fyrirtækið hafi einnig orðið Barcelona úti um skýrsl­ur um atvinnu­dómgæslu.

mbl.is