Barcelona greiddi fyrirtæki varaforseta dómarasamtaka háar fjárhæðir

Barcelona sætir nú rannsókn vegna meints dómaramisferlis.
Barcelona sætir nú rannsókn vegna meints dómaramisferlis. AFP/Pau Barrena

Saksóknaraembættið í Barcelona á Spáni rannsakar nú ásakanir á hendur knattspyrnufélagsins Barcelona um að félagið hafi greitt fyrirtæki í eigu José Enríquez Negreira, sem þá var varaforseti dómarasamtaka Spánar, háar fjárhæðir.

Spænska útvarpsstöðin Cadena SER greindi frá því í vikunni að upphæðin hafi numið um 1,4 milljónum evra, sem eru 218 milljónir íslenskra króna, og að Barcelona hafi greitt fyrirtæki Enríquez Negreira hana yfir þriggja ára skeið, frá 2016 til 2018.

Dómarasamtök Spánar, CTA, sjá um að úthluta dómurum á leiki í deildakeppnunum þar í landi.

Leikur grunur á að Enríquez Negreira hafi hyglt Barcelona við val á dómurum fyrir leiki.

Hætti á sama tíma og síðasta greiðslan barst

Síðasta greiðslan sem barst fyrirtæki Enríquez Negreira átti sér stað í júní árið 2018, en samkvæmt Cadena SER lét hann einmitt af störfum hjá CTA í sama mánuði.

Fyrirtæki Enríquez Negreira sinnir ráðgjafastörfum vegna ýmissa knattspyrnutengdra málefna.

Barcelona sagði í yfirlýsingu að félagið hafi ráðið utanaðkomandi ráðgjafa með það fyrir augum að verða félaginu úti um myndbandsskýrslur um unga og efnilega leikmenn víðs vegar á Spáni og að ráðgjafinn hafi einnig orðið Barcelona úti um skýrslur um atvinnudómgæslu.

Barcelona sagði þetta einungis eðlilega starfshætti innan knattspyrnunnar.

Deildin mun ekki refsa Barcelona

Cadena SER náði tali af Enríquez Negreira sem viðurkenndi að hafa einungis unnið fyrir Barcelona en að hann hafi aldrei nokkru sinni hyglt Börsungum þegar kæmi að vali á dómurum fyrir leiki.

Javier Tebas, forseti spænsku 1. deildarinnar, hefur bent á að Barcelona verði ekki refsað með neinum hætti af deildinni þar sem fjögur og hálft ár eru liðin síðan síðasta greiðsla Barcelona barst fyrirtæki Enríquez Negreira og að samkvæmt spænskum lögum verði að beita refsingum innan þriggja ára frá mögulegum brotum sem þessum.

Hann bætti því við að deildin muni nú fylgjast með því hvað komi út úr rannsókn saksóknaraembættisins og taka svo ákvörðun um næstu skref.

Spænska knattspyrnusambandið hefur látið hafa það eftir sér að stjórnarmeðlimir þess muni mæta fyrir rétt vegna málsins verði þess óskað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert