Alfreð og Sævar í landsliðshópnum

Alfreð Finnbogason í leik með íslenska landsliðinu.
Alfreð Finnbogason í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Alex Nicodim

Þrír Íslendingar léku undir stjórn Freys Alexanderssonar hjá Lyngby á nýafstöðnu tímabili, sem lauk með því að liðið bjargaði sér frá falli úr dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla með ótrúlegum hætti.

Þar er um að ræða þá Alfreð Finnbogason, Sævar Atla Magnússon og Kolbein Birgi Finnsson, en samningsstaða þeirra allra er ólík.

Spurður út í stöðuna á þeim kvaðst Freyr gjarna vilja halda þeim öllum í sínum herbúðum og greindi um leið frá því að tveir þeirra verði í fyrsta landsliðshóp Åge Hareides landsliðsþjálfara, sem tilkynntur verður klukkan 11 í dag.

„Alfreð er samningslaus frá og með næstu mánaðamótum og hans staða er og var óljós. Við vitum ekki nákvæmlega hvað hann vill og við tökum upp þráðinn eftir landsleikina, leyfum honum að fara í þá.

Sævar á ár eftir af samningi og við erum að vonast til þess að geta framlengt við hann sem fyrst. En hann er líka í landsliðsverkefni þannig að við sjáum hvernig það fer. En það er mikill hugur hjá okkur að framlengja samninginn við Sævar. Hann er búinn að vera stórkostlegur.

Kolbeinn á tvö ár eftir af samningi. Svo er bara sama með þá eins og með mig, það getur allt gerst í þessum blessaða bransa. En það er áhugi hjá okkur að halda þeim öllum, það er engin spurning,“ sagði Freyr í samtali við mbl.is.

Ítar­legt viðtal er við Frey í Morg­un­blaðinu í dag.

mbl.is