Gífurleg vonbrigði

Jón Arnar Magnússon í varð að hætta keppni í tugþraut …
Jón Arnar Magnússon í varð að hætta keppni í tugþraut í nótt vegna meiðsla. mbl.is/Sverrir

Jón Arnar Magnússon hætti keppni í tugþraut á Ólympíuleikunum í nótt en hann meiddist í langstökkskeppninni þar sem hann gerði öll stökk sín þrjú ógild og fékk því engin stig í þeirri grein. Hann keppti þó áfram í kúluvarpi og náði þar þriðja lengsta kasti keppenda án þess að beita sér að fullu en í hléi eftir kúluvarpskeppnina ákvað Jón Arnar að hætta keppni.

Jón sagði í nótt við Ívar Benediktsson blaðamann Morgunblaðsins að þetta væru gífurleg vonbrigði enda hefði allt hans starf og undirbúningur undanfarin fjögur ár miðast við Ólympíuleikana í Sydney. Ekkert hefði bent til annars en sú vinna hefði skilað sér og hann hefði verið vel undirbúinn fyrir leikana. Því væri ákaflega sárt að svona smávægileg meiðsli hefðu gert vart við sig og slegið sig út af laginu. Jón Arnar varð fyrir tognun á vinstra lærvöðva. Talið er að um sé að ræða meiðsl sem hann hlaut fyrir nokkru en hafði ekki fundið fyrir í nokkrar vikur og taldi sig vera búinn að ná sér af að fullu. Ekki er ljóst hvað tekur við hjá Jóni Arnari eftir Ólympíuleikana. Allir samningar Jóns Arnars við afreksmannasjóð Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, félög og fyrirtæki og sveitarfélögin í heimabyggð hans á Sauðárkróki renna út um mánaðamótin. Jón Arnar sagði að sennilega myndi hann fara að leita sér að vinnu þegar heim kæmi og jafnframt að kanna hvort einhver hefði áhuga á að hann héldi áfram æfingum og keppni. Smellið hér til að sjá stöðuna í tugþrautinni eftir þrjár greinar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert