Eygló fékk gull: Þetta var ágætt

Eygló Ósk Gústafsdóttir synti til sigurs í fyrstu grein í sundi, 200 metra baksundi, á Smáþjóðaleikunum í Liechtenstein í dag. Eygló kom í mark á 2:18,21 mínútum og sagði það ekki góðan tíma enda sé hún nú í undirbúningi fyrir HM í sundi sem fer fram í lok júlí og því ekki í sínu besta keppnisformi.

„Þetta var ágætt bara, ekkert rosalega gott svo sem,“ sagði Eygló Ósk við mbl.is á sundlaugarbakkanum í dag. Hún keppir samtals í fjórum greinum á leikunum, einni á dag, en einblínir helst á baksundin enda sterkust í þeim.

„Ég ætla mér að ná inn á HM líka í 100 metra baksundi en svo fer ég til Mare Nostrum í næstu viku og get þá líka reynt að ná því þar,“ sagði Eygló Ósk sem er aðeins 16 ára gömul og því rétt að skríða úr grunnskóla. Hún þurfti að fá frí síðustu daga skólans til að keppa í Liechtenstein.

„Það voru nú bara einhverjir leikdagar eftir og svona en útskriftin er á morgun og ég missi af henni,“ sagði sundkonan.

Jóna Helena Bjarnadóttir varð í 5. sæti á 2:27,57 í 200 metra baksundinu. Hjá körlunum varð Davíð Hildiber Aðalsteinsson þriðji á 2:09;09, 60/100 úr sekúndu á undan Kolbeini Hrafnkelssyni.

Eygló Ósk á ferðinni í Liechtenstein í dag.
Eygló Ósk á ferðinni í Liechtenstein í dag. Ljósmynd/GÞH/sundfréttir.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert