Ari Bragi með nýtt Íslandsmet

Ari Bragi Kárason setti Íslandsmet í dag.
Ari Bragi Kárason setti Íslandsmet í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spretthlauparinn Ari Bragi Kárason úr FH setti í dag nýtt Íslandsmet í 100 metra hlaupi karla á spretthlaupsmóti FH þegar hann hljóp á 10,52 sekúndum við kjöraðstæður í Kaplakrika en vindur var +2,0, eða nákvæmlega það sem hann má mest vera.

Með þessu hlaupi slær Ari Bragi út Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar, 10,56 sekúndur á rafmagnstíma frá 1997.

Tíminn er einnig betri en besti skráði „handtími“ Hilmars Þorbjörnssonar frá 1957, Vilmundar Vilhjálmssonar frá 1977 og Jóns Arnars Magnússonar frá 1996 en þeir hlupu allir á 10,3 sekúndum en sá tími jafngildir 10,54 s samkvæmt reiknireglu. 

Í sama hlaupi bættu liðsfélagar Ara Braga tíma sinn. Það voru þeir Kolbeinn Höður Gunnarsson sem hljóp á 10,61 sekúndu og Trausti Stefánsson sem hljóp á 10,85 sekúndum.   Ari Bragi hefur stormað inn á sviðið í frjálsum eins og í fleiri greinum. Hann er margverðlaunaður tónlistarmaður sem hafði náð góðum árangri í róðri, crossfit og ólympískum lyftingum áður en hann kom með þessum einstaka árangri inn á spretthlaupsbrautina.
Félagarnir úr FH eftir hlaupið í dag.
Félagarnir úr FH eftir hlaupið í dag. Ljósmynd/FH
mbl.is

Bloggað um fréttina