Aníta er einstakur íþróttamaður

Aníta Hinriksdóttir og Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari hennar.
Aníta Hinriksdóttir og Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari hennar. mbl.is/Golli

„Þetta eru gríðarlega ánægjuleg tíðindi og ég er ofboðslega stoltur af henni. Aníta hefur verið á barmi þess að tryggja sér verðlaun í síðustu stórmótum og nú hefur hún tekið það stóra skref að komast á pall,“ sagið Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu Hinriksdóttur, þegar mbl.is ræddi við hann um bronsverðlaun hennar í 800 metra hlaupi á Evrópumeistaramótinu innanhúss sem hún vann fyrr í dag. 

Það eru stór skref að fara úr því að vera efnilegur hlaupari, síðan frambærilegur hlaupari og loks að koma sér á pall. Aníta komst í milliriðla á Evrópumeistaramótinu innanhúss fyrir fjórum árum, varð síðan í fimmta sæti fyrir tveimur árum og vinnur nú bronsverðlaun. Það hefur verið stígandi í hennar frammistöðu og það er mikið afrek að ná þessum áfanga,“ sagði Gunnar Páll um þróunina á hlaupaferli Anítu.

„Ég las það hjá ykkur í morgun að það væru 16 ár síðan Íslendingur vann til verðlauna á stórmóti og það er gott að Ísland minni á sig með því að vinna til verðlauna. Það eru margir frambærilegir íþróttamenn sem hafa komið fram á sjónarsviðið, en það þarf allt að ganga upp til þess að ná jafn góðum árangri og Aníta hefur nú náð,“ sagði Gunnar Páll um þessi sögulegu tíðindi. 

Aníta að uppskera eins og hún hefur sáð

„Aníta hefur unnið hart að þessu og stefnt að því að ná þessum áfanga. Ég og Honoré Hoedt höfum unnið náið saman síðan hann bættist við í þjálfarateymi hennar. Við höfum aðeins breytt um taktík í hlaupum hennar og hún er orðin mun betri í þeirri taktík sem hún notaði í dag. Það er að byrja hlaupið hægt og eiga svo orku til þess að fara fram úr andstæðingum sínum í seinni hluta hlaupsins,“ sagði Gunnar Páll um aðferðafræði Anítu í hlaupinu í dag. 

„Það er hins vegar fyrst og fremst það hugarfar sem Aníta hefur sem leggur grunninn að þessum árangri. Aníta er einstakur íþróttamaður og það eru fáir sem hafa meiri vilja og metnað en hún. Aníta hefur einsett sér það að ná góðum árangri og hún hefur bætt sig jafnt og þétt í gegnum tíðina. Það eru allar forsendur til þess að hún geti svo bætt sig enn frekar í framtíðinni,“ sagði Gunnar Páll um lykilinn að glæstum árangri Anítu. 

„Það var einkennilegt að vera ekki staddur á mótsstað, en þetta er í fyrsta skipti síðan árið 2013 sem ég er ekki á svæðinu þegar Aníta keppir. Ég var mjög stressaður þegar um það bil 50 metrar voru eftir og hin sænska, Lovisa Lindh, var farin að sauma að henni. Sem betur fer kláraði Aníta hlaupið með sóma og tryggði sér bronsverðlaun. Það var mjög gaman að sjá hana koma þriðja í mark,“ sagði Gunnar Páll um þær tilfinningar sem bærðust um í brjósti hans meðan á hlaupinu stóð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina