Hlaut bronsverðlaun á HM í bekkpressu

Matthildur með bronsverðlaunin.
Matthildur með bronsverðlaunin. Ljósmynd/Aðsend

Matthildur Óskarsdóttir vann bronsverðlaun í telpnaflokki á heimsmeistaramótinu í bekkpressu í Texas í Bandaríkjunum í gær.

„Ég er bara mjög glöð og sátt,“ segir hún um árangurinn.

Matthildur, sem er sautján ára, setti einnig Íslandsmet í sínum aldurs- og þyngdarflokki með því að lyfta 80 kílógrömmum á mótinu. Bandarísk stúlka vann gullið með því að lyfta 102,5 kílóum og þýsk stúlka silfrið með lyftu upp á 87,5 kíló.

Frá verðlaunaafhendingunni. Matthildur er lengst til hægri.
Frá verðlaunaafhendingunni. Matthildur er lengst til hægri. Ljósmynd/Aðsend

Veiktist viku fyrir mót

Aðspurð segir Matthildur, sem keppir í undir 18 ára flokki, að árangurinn hafi ekki komið sér  á óvart því hún hafi sett stefnuna á verðlaunasæti.  „Ég ætlaði mér að gera aðeins meira en ég veiktist viku fyrir mót og borðaði ekkert vel,“ segir hún en þar að auki tognaði hún lítillega í bakinu.

Matthildur fékk ælupest áður en hún fór til Texas og veiktist svo aftur á leiðinni út. Talið er að um matareitrun hafi verið að ræða.

Matthildur á HM í Texas.
Matthildur á HM í Texas. Ljósmynd/Aðsend

Keppir í Hvíta-Rússlandi í júní 

Spurð hversu lengi hún hafi æft fyrir mótið segist hún hafa farið í aðgerð á ökkla síðasta sumar og byrjaði því ekki að æfa fyrr en í ágúst.

Fram undan hjá Matthildi er þátttaka á HM í þrílyftu sem verður haldið í Hvíta-Rússlandi í júní. Þar keppir hún í bekkpressu, hnébeygju og réttstöðulyftu.

„Ég stefni á að setja ný Íslandsmet og á persónulega bætingu. Ef eitthvert sæti kemur líka verður það skemmtilegt en þetta er rosalega sterkur flokkur sem ég er í og margir keppendur.“

Ljósmynd/Aðsend

Þess má geta að Matthildur er dóttir Evu Maríu Jónsdóttur fjölmiðlakonu og Óskars Jónassonar kvikmyndagerðarmanns og var Eva María með henni í Texas meðan á mótinu stóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert