Fjórir íþróttamenn fá ríkisborgararétt

Danero Thomas var drjúgur fyrir ÍR í úrslitakeppninni en leikur ...
Danero Thomas var drjúgur fyrir ÍR í úrslitakeppninni en leikur með Tindastóli næsta vetur. mbl.is//Hari

Tveir leikmenn úr efstu deild karla í körfuknattleik, einn úr karladeildinni í íshokkí og einn úr næstefstu deild karla í knattspyrnu fá íslenskan ríkisborgararétt samkvæmt frumvarpi til laga um veitingu ríkisborgararéttar. 

Um er að ræða þá Danero Thomas og Collin Anthony Pryor í körfuboltanum. Báðir eru þeir giftir íslenskum konum og hafa leikið hér í mörg ár en koma frá Bandaríkjunum. Breytir þetta nokkuð stöðu þeirra í Dominos-deildinni þar sem kvóti er á fjölda bandarískra leikmanna sem verið geta inni á vellinum í einu. 

Miloslav Racansky sem verið hefur lykilmaður hjá Skautafélagi Reykjavíkur er einungis 25 ára gamall og verður nú löglegur með íslenska landsliðinu. Ætti hann að líkindum að geta styrkt landsliðið nokkuð verði hann valinn. Racansky kemur frá Tékklandi og þar hefur hann ekki leikið A-landsleik enda tékkneska landsliðið firnasterkt. 

Sá fjórði er Emir Dokara sem leikið hefur með Víkingi í Ólafsvík frá árinu 2010 og er fyrirliði liðsins. Dokara kemur upphaflega frá Bosníu. 

Collin Pryor í leik með Stjörnunni á móti KR.
Collin Pryor í leik með Stjörnunni á móti KR. mbl.is/Árni Sæberg
Miloslav Racansky í leik með SR.
Miloslav Racansky í leik með SR. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Emir Dokara í leik gegn Breiðabliki.
Emir Dokara í leik gegn Breiðabliki. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is