Tekjur karlanna 10 sinnum hærri

Nánast allar tekjur Williams síðasta árið komu frá styrktarsamningum.
Nánast allar tekjur Williams síðasta árið komu frá styrktarsamningum. AFP

Tennisstjarnan Serena Williams er launahæsta íþróttakona í heimi, þriðja árið í röð, samkvæmt nýjum lista Forbes. Nánast allar hennar tekjur síðasta árið komu frá styrktarsamningum, en Williams hefur ekki gengið jafn-vel og hún hafði vonað á vellinum eftir að hafa eignast sitt fyrsta barn á síðasta ári.

Williams tók sér fjórtán mánaða hlé frá mótum eftir að hafa tilkynnt í janúar á síðasta ári að hún ætti von á sínu fyrsta barni. Hún sneri aftur á völlinn í vor og hefur ekki náð jafngóðum árangri og henni er lagið síðan þá. Hún beið stærsta ósigur ferilsins á Silicon Valley-mótinu í sumar þegar hún tapaði í tveimur settum gegn Bretanum Johonnu Kona 6-1, 6-0.

Þá hefur henni ekki tekist að vinna meira en 62.000 dollara, eða rúmar 6,5 milljónir króna, síðan hún sneri aftur, í verðlaunafé.

Það hefur þó ekki komið að sök því Williams, sem er sigursælasta tenniskona sögunnar, ávann sér meira en 18 milljónir Bandaríkjadala, tæpa tvo milljarða króna, með auglýsinga- og styrktarsamningum á árinu.

Karlarnir þéna 10 sinnum meira

Williams, 36 ára, þénaði helmingi meira utan vallarins en nokkur önnur íþróttakona. Þá hafa 16 karlkyns íþróttamenn þénað meira en Williams síðustu tólf mánuði með styrktarsamningum.

Tíu launahæstu íþróttakonur ársins þénuðu samanlagt 105 milljónir dollara, rúma 11 milljarða króna, frá júní 2017 til júní 2018. Sú upphæð er 4 prósentum lægri en í fyrra og 28% lægri en hún var fyrir fimm árum.

Til samanburðar eru samanlagðar tekjur tíu launahæstu íþróttamanna ársins, sem eru allir karlkyns, meiri en milljarður dollara, tæplega 110 milljarðar króna.

Á lista Forbes yfir 100 launahæstu íþróttamenn ársins, var ekki ein kona eftir að tekjur Williams lækkuðu vegna fæðingarorlofsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert