Shiffrin sigraði í risasviginu

Mikaela Shiffrin fagnar sigrinum.
Mikaela Shiffrin fagnar sigrinum. AFP

Mikaela Shiffrin frá Bandaríkjunum sigraði í risasvigi á heimsmeistaramótinu í alpagreinum í Svíþjóð í dag. Landa hennar Lindsey Vonn féll í brautinni í sinni síðustu risasvigskeppni. 

Shiffrin náði frábærri ferð í tæknilega erfiðri braut í Åre þar sem mótið fer fram. Sofia Goggia frá Ítalíu fékk silfurverðlaunin en hún var aðeins 0,02 sekúndum á eftir Shiffrin. 

Shiffrin varð þar með heimsmeistari í fjórða skipti á ferlinum þótt hún sé einungis 23 ára gömul. 

Vonn ætlar að ljúka keppnisferlinum á HM með því að keppa í risasvigi og bruni en hnémeiðsli hennar hafa gert það að verkum að hún mun ekki keppa í heimsbikarnum í vetur eins og áætlað var. 

Vonn féll í brautinni í dag og keyrði út úr en miðað við fyrstu fréttir þá virðist hún hafa sloppið nokkuð vel frá byltunni. Ekki er annað vitað en að hún muni keppa í bruninu eins og áætlað var og lýkur þá glæsilegum ferli en hún er sigursælasta kona heimsbikarsins í alpagreinum frá upphafi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert