„Það verður langt partý hjá okkur“

Thomas Stuart-Dant var að spila sitt fyrsta tímabil með SA …
Thomas Stuart-Dant var að spila sitt fyrsta tímabil með SA í vetur. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Thomas Stuart-Dant vann titil í dag með Skautafélagi Akureyrar en hann er Kanadamaður og var að spila fyrsta ár sitt með Akureyringum. Vissulega var Thomas kampakátur eftir að SA hafði unnið SR 4:1 og tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í 21. skipti.

Hvernig er tímabilið búið að vera hjá þér?

„Virkilega gott, þakka þér fyrir. Bara það að koma hingað til Íslands til að spila hefur verið mögnuð reynsla. Að vera partur af þessu liði hér á Akureyri hefur verið ljúft. Við höfum unnið að þessu marki í allan vetur og ég er svo glaður að hafa náð takmarkinu hérna í dag. Það er gott að vinna en maður getur líka haft gott af því að tapa. En við unnum alla úrslitaleikina og það var mjög gott.“

Verður þú hérna á Akureyri næsta tímabil?

„Það er aldrei að vita. Ég kann vel við mig hérna og þarf að ræða málin við félagið. Nú er bara að fara að njóta kvöldsins með liðinu.“

Verður svaka partý?

„Já það verður langt partý hjá okkur“ sagði Thomas léttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert