Tuttugu og einn titill í hús

Leikmenn SA fagna 21. Íslandsmeistaratitli félagsins.
Leikmenn SA fagna 21. Íslandsmeistaratitli félagsins. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þriðja leiknum í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí karla lauk í dag á Akureyri þar sem SA og SR áttust við en leiknum lauk með 4:1-sigri SA. SR-ingar urðu að vinna leikinn til að framlengja einvígi liðanna um Íslandsmeistaratitilinn en staðan var 2:0 í unnum leikjum þegar flautað var til leiks í dag.

Heimamenn voru ekkert á þeim buxunum að hleypa SR-ingum að borðinu og þeir unnu góðan sigur. SA var að landa sínum tuttugasta titli á 28 árum. Akureyringar eru vel að titlinum komnir en þeir unnu SR tíu sinnum í ellefu leikjum liðanna í deildar- og úrslitakeppninni í vetur. Allt var með kyrrum kjörum framan af fyrsta leikhlutanum og það voru SR-ingar sem voru kraftmeiri og þeir sköpuðu sér nokkur færi.

Var þetta lognið á undan storminum því á lokamínútum leikhlutans rigndi mörkum. SA komst í 2:0 með mörkum skoruðum með innan við mínútu millibili. Fyrrra markið skoraði Jordan Steger með sakleysislegu skoti en seinna markið var þruma upp í skeytin frá Thomas Stuart-Dant. SR-ingar blésu strax í herlúðra og sóttu án afláts þar til pökkurinn lá í neti SA-marksins. Aron Knútsson átti gott skot sem virtist á leið í stöngina eða fram hjá marki SA. Adam Beukeboom ákvað þó að grípa pökkinn en það vildi ekki betur til en svo að hann misreiknaði sig og pökkurinn lak í gegnum hanska Adams og inn í markið.

Staðan var 2:1 eftir fyrsta leikhlutann og hún breyttist ekki lengi vel. SR komst í yfirtölu um miðjan annan leikhlutann og dundu þá skotin á marki heimamanna. Allt kom fyrir ekki og áfram var barist. Mark frá Jussi Sipponen kom SA í 3:1 og þá hrökk allt í baklás hjá Reykvíkingum. Heimamenn héldu þeim í heljargreiðum og eftir mikla orrahríð, þar sem Atli Snær Valdimarsson varði eins og berserkur, náði Andri Már Mikaelsson að skora fjórða markið. Í kjölfarið voru SR-ingar sendir í refsiboxið í bunkum og SA sótti áfram.

Staðan var 4:1 þegar lokaleikhlutinn hófst og Akureyringar með öll tromp á hendi. Í byrjun hans voru gestirnir nefnilegar tveimur færri og útlitið því svart hjá þeim. SR-ingar voru langt frá því að vera hættir og þeir stóðu af sér refsingarnar og héldu ótrauðir áfram. Þeim gekk ekkert að skora þótt þeir væru tvisvar í yfirtölu og smám saman þvarr þróttur SR-inga. Miloslav Racansky fékk þó víti fyrir SR þegar skammt var eftir en hann nýtti það ekki. Á lokamínútunum sótti SR loks af miklum móð en allt kom fyrir ekki. SA vann því 4:1. Titillinn er því Akureyringa í 20. skiptið.

SA 4:1 SR opna loka
60. mín. SA Leik lokið Akureyringar vinna leikinn og Íslandsmótinu í íshokkí er þar með lokið. Íslandsmeistaratitillinn fer á loft eftir skamma stund.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert