Met hjá Ernu Sóleyju

Erna Sóley Gunnarsdóttir.
Erna Sóley Gunnarsdóttir. Ljósmynd/FRÍ

Erna Sóley Gunnarsdóttir keppti í kúluvarpi í Houston í Bandaríkjunum um síðustu helgi og varpaði hún kúlunni 15,39 metra.

Þar með bætti hún eigið met í flokki stúlkna 18-19 ára utanhúss. Metið var 14,54 metrar sem Erna setti sjálf í fyrra. Einnig er þetta bæting á stúlknameti 20-22 ára sem Helga Margrét Þorsteinsdóttir átti og var 15,08 metrar.

Erna Sóley bætti sömu aldursflokkamet innanhúss í janúar fyrr á þessu ári. Þá kastaði hún 15,64 metra og á hún því góða möguleika á því að bæta metin utanhúss enn frekar. Næsta mót Ernu Sóleyjar verður mótið Texas Relays í Austin í Texas á laugardaginn.

mbl.is