Tímabilið hefst á Reykjanesi á sunnudaginn

Keppendur í Reykjanesmótinu.
Keppendur í Reykjanesmótinu. Ljósmynd/Hleiðar Gíslason

Götuhjólatímabilið hefst nú á sunnudaginn með Reykjanesmóti 3N og GÁP, en það er jafnframt fyrsta bikarmót Hjólreiðasambands Íslands í götuhjólreiðum þetta árið. Keppt verður í þremur vegalengdum; 32 km fyrir byrjendur og þá sem vilja taka styttri vegalengd, 64 km fyrir þá sem eru lengra komnir og svo 106 km bikarkeppnin fyrir keppnisfólk og þá sem vilja fara fulla vegalengd.

Svanur Már Sch. Skarphéðinsson mótsstjóri segir í samtali við mbl.is að það stefni í gott hjólaveður á sunnudaginn. Spáin gerir ráð fyrir hægri norðlægri átt án úrkomu, þó hitinn mætti jafnvel vera aðeins hærri. Svanur segir að hann geti þó ekki verið annað en þakklátur ef það verði 4-6°C, því án úrkomu sé slíkt fínasta hjólaveður. Bendir hann á að í fyrra þurfti að fresta mótinu þar sem frost var á upphaflega keppnisdeginum.

Breytt fyrirkomulag er í bikarkeppnunum í götuhjólaflokki í ár sem miðar að því að fá fleiri til að taka þátt í lengstu vegalengdinni. Áður var aðeins keppt í meistaraflokki (e. elite), en í ár var einnig komið upp mastersflokki sem fer þá vegalengd. Svanur segir breytinguna þegar hafa skilað sér í betri þátttöku í þeim flokki.

Með nýja fyrirkomulaginu getur fólk verið í masterflokknum, sem er flokkaskiptur eftir aldri, en samt sem áður safnað stigum í bikarkeppni ársins. Svanur segir þetta gert fyrir þá fjölmörgu sem hafi fullt erindi í lengri vegalengdir, en séu ekki á pari við þá allra bestu sem keppi í meistaraflokknum. Með auknum fjölda aukist möguleikar þeirra á að vera með fleirum í hóp (peloton) í keppninni og þannig vinna saman.

Þegar þetta er skrifað eru 150 manns skráðir í keppnina, en þeim fer hratt fjölgandi, enda hefur hefðin í hjólamótum verið sú að mesta skráningin er lokadag skráningar. Svanur segir að fyrir tveimur árum hafi rétt rúmlega 300 manns verið skráðir til leiks og að vonandi fari skráningin í ár upp í þá tölu. „Það væri auðvitað draumurinn að komast yfir þá tölu,“ segir hann.

Leiðin í 106km flokkinum liggur frá Sandgerði framhjá Höfnum og …
Leiðin í 106km flokkinum liggur frá Sandgerði framhjá Höfnum og Reykjanesvita í Grindavík og upp Festarfjalla og svo til baka. Eins og sjá má er ekki mikill hæðarmunur, ef frá er talið Festarfjallið.

Reykjanesmótið fer fram á nokkuð flatri braut og eru 32 og 64 km flokkarnir því ákjósanlegur vettvangur fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í hjólreiðum. Keppni í öllum flokkum hefst í Sandgerði og er hjólað að gatnamótum Ósabotna og Hafnarvegs á lokaðri braut. Þar snýr 32 km flokkurinn við, en 64 og 106 km flokkarnir halda áfram. 64 km flokkurinn snýr svo við hjá Reykjanesvirkjun, en 106 km flokkurinn fer í gegnum Grindavík og upp Ísólfsskálabrekkuna alla leið upp Festarfjall.

Svanur segir að sú brekka sé stóra stundin í bikarflokkunum. „Þar skilja leiðir hjá þeim bestu og hinna,“ segir hann og bætir við að þar komi aflmunur keppenda best í ljós. Í fyrra fóru tveir öflugust keppendurnir í karlaflokki í árás í brekkunni og slitu sig frá öðrum. Hjóluðu þeir einir alla leið til baka og kepptu svo sín á milli á síðustu hundrað metrunum.

Samkvæmt skráningu sem liggur fyrir núna gæti þó keppnin í ár þó orðið nokkuð meira spennandi og gæti reynst erfitt fyrir einn eða tvo bestu að slíta sig frá stærri hóp, sem hefur í krafti fjöldans meiri möguleika á að saxa á forskotið á flatari köflunum á leiðinni til baka. Taktík mun því að öllum líkindum skipta miklu máli í ár.

Í kvennaflokki er einnig góð þátttaka í bikarflokknum og flestar af öflugustu hjólakonum landsins þegar búnar að skrá sig.

Skráning fer fram á vef Hjólreiðasambandsins, en henni lýkur í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert