Ólympíufarar og Íslandsmethafar á Meistaramótinu

Aníta Hinriksdóttir mun keppa í 800 og 1500 metra hlaupi …
Aníta Hinriksdóttir mun keppa í 800 og 1500 metra hlaupi á Meistaramótinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um fer fram Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum. Mótið fer fram á sjálfum þjóðarleikvangi Íslands, Laugardalsvellinum. Fremsta frjálsíþróttafólk landsins verður samankomið og mun keppa um 37 Íslandsmeistaratitla.

Í 100 og 200 metra hlaupi karla og kvenna er mikið um sterka keppendur. ÍR-ingarnir Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Tiana Ósk Whitworth brutu blað í sögunni fyrir tveimur vikum þegar þær hlupu hvor um sig tvisvar sinnum undir Íslandsmetinu í 100 metra hlaupi, sem staðið hafði í fimmtán ár, á sterku móti út í Þýskalandi. Tiana Ósk byrjaði á því að bæta Íslandsmetið í undanrásunum og Guðbjörg Jóna bætti það svo aftur rúmum klukkutíma síðar í úrslitahlaupinu. Um helgina munu þær keppa í sitthvorri greininni í undirbúningi sínum fyrir EM U20 sem fram fer í næstu viku. Tiana Ósk keppir í 100 metra hlaupi og Guðbjörg Jóna í 200 metra hlaupi.

Ari Bragi Kárason methafi í 100 metra hlaupi verður í …
Ari Bragi Kárason methafi í 100 metra hlaupi verður í eldlínunni á Meistaramótinu Ljósmynd/Guðmundur Karl

Hjá körlunum má búast við spennandi hlaupum. Íslandsmethafinn í 100 metra hlaupi, Ari Bragi Kárason úr FH er mættur aftur á brautina eftir meiðsli. Hann mun þar mæta ríkjandi Íslandsmeistaranum í greininni, Jóhanni Birni Sigurbjörnssyni úr UMSS. Á meðal keppenda er einnig Kolbeinn Höður Gunnarsson, FH. Kolbeinn á Íslandsmetið í 200 metra hlaupi og muni því klárlega veita Ara Braga og Jóhanni Birni harða samkeppni í 100 metra hlaupinu ásamt því að vera sigurstranglegur í 200 metrunum.

Á Meistaramótinu verða tveir íslenskir Ólympíufarar. Það eru þau Aníta Hinriksdóttir og Guðni Valur Guðnason sem keppa bæði fyrir ÍR. Aníta keppir í 800 metra hlaupi og Guðni Valur í kringlukasti. Þau eru bæði á meðal þeirra fremstu í sinni grein í heiminum, Aníta er að auki Íslandsmethafi í sinni grein og Guðni er í öðru sæti afrekalistans. Auk þess að keppa í sinni sterkustu grein þá mun Aníta einnig keppa í 1500 metra hlaupi og Guðni Valur í kúluvarpi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert