„Líkurnar eru svona 0,01%“

Baldur Sigurðsson í baráttu við Kristin Jónsson í leiknum í …
Baldur Sigurðsson í baráttu við Kristin Jónsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þegar við skorum markið fannst mér við ekki búnir að vera líklegir síðustu 20 mínúturnar. Við negldum boltanum fram og unnum enga bolta. Í stöðunni 1:1 verðum við hræddir og þeir skora verðskuldað. Það var dálítið magnað að við skyldum hafa náð að jafna. En við höfðum trú og erum nýbúnir að fara í leik þar sem við skorum á síðustu sekúndunni,“ sagði Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar sem skoraði eitt mark í 2:2 jafntefli liðsins gegn KR í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í Vesturbænum í kvöld. Eftir leikinn í kvöld er Stjarnan með 20 stig í 4. sæti en KR hefur átta stiga forystu á toppnum.

Baldur lék um árabil með KR og markið í kvöld var hans annað gegn gömlu félögunum. Mark Baldurs var nokkuð undarlegt þar sem fáir virtust kveikja á perunni að boltinn hafði farið inn fyrir línuna.

„Við vorum búnir að fá tvær aukaspyrnur. Himmi (Hilmar Árni Halldórson) virtist vera að miða á mig. Ég held að það hafi verið Óskar (Örn Hauksson) sem droppaði alltaf fyrstur á nærsvæðinu, fannst mér, og ég sá möguleikann á því að stinga mér inn fyrir. Það heppnaðist. Flugið á boltanum var eitthvað skrýtið en svo endaði hann bara stöngin inn,“ sagði Baldur.

Stjörnumenn jöfnuðu í uppbótartíma með skalla Hilmars Árna Halldórssonar af stuttu færi eftir tvö KR í síðari hálfleik.

„Við vitum að Jói (Jóhann Laxdal) getur kastað mjög langt. Þetta var frábært innkast og það er gaman að skora úr tveimur föstum leikatriðum. Við höfum ekki alveg náð að vera öflugir í því í sumar,“ sagði Baldur við mbl.is í kvöld.

Baldur segir aftur á móti að það hafi verið óþarfi fyrir Stjörnuna að koma sér í þessa stöðu.

Mér fannst við vera með þetta í fyrri hálfleik og við komum ágætlega inn í seinni hálfleikinn. Það var pínu klaufalegt að gefa þetta víti og eftir það koma KR-ingarnir sterkir inn og við urðum pínu hræddir. Við ætluðum okkur sigur hérna í dag og eiginlega þurftum á honum að halda. KR-ingarnir eru eflaust ekkert rosalega ósáttir. Þeir eru með góða forystu á toppnum. Eins og staðan er núna er raunhæfasti möguleiki okkar að einbeita okkur að Evrópusæti. Við stefnum á það og sjáum bara hvað gerist,“ sagði Baldur.

Framundan er Evrópuævintýri hjá Stjörnunni. Liðið mætir spænska efstudeildarliðinu Espanyol í Barcelona í 2. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar. Baldur segir Stjörnuliðið ætla sér að njóta þess. 

„VIð erum að fara í spennandi leik. Við förum út annað kvöld. Það verður svakalegur leikur og  gaman að sjá hvernig kerfið verður í þeim leik. Ég reikna ekki með því að við við verðum mikið með boltann. Líkurnar á því að við förum áfram eru svona 0,01%. Við förum pressulausir inn í þann leik, á móti jafn stóru liði, og ætlum að hafa gaman. VIð munum verjast og gera okkar besta. Vonandi náum við að halda núllinu lengi. Það væri gaman að hafa kannski einhverja spennu þegar við fáum þá í Garðabæinn," sagði Baldur Sigurðsson.

mbl.is