Maraþon- og göngugreinar færðar frá Tókýó

Tsehay Gemechu hleypur í Sapporo.
Tsehay Gemechu hleypur í Sapporo. AFP

Alþjóðaólympíusambandið hefur ákveðið að maraþon- og göngugreinar á Ólympíuleikunum á næsta ári fari ekki fram í Tókýó, eins og aðrar greinar á leikunum. Ástæðan er mikill hiti í Tókýó á sumarmánuðum, sem gæti haft áhrif á heilsu langhlaupara. 

Þess í stað fara greinarnar fram í Sapporo, sem er 800 kílómetra frá Tókýó. Borgin er sú stærsta á nyrstu eyju Japans, Hokkaido. 

Hitinn getur farið upp í 30 gráður í Tókýó í júlí og ágúst með miklum raka. Hitinn er oftast um sex gráðum lægri í Sapporo, en vetrarólympíuleikarnir árið 1972 voru haldnir í borginni. Sumarólympíuleikarnir í Tókýó árið 1964 fóru fram í október. 

Ákvörðunin var tekin í kjölfar þess að hlauparar á HM í Katar í síðasta mánuði áttu erfitt með að ráða við hitann og 40% hlaupara í kvennaflokki komust ekki í mark. 

Yuriko Koike, borgarstjórinn í Tókýó, var allt annað en sátt við ákvörðunina. „Af hverju Sapporo? Hver ákvað þetta? Það var ekki talað við okkur um þetta og að mínu mati ættu greinarnar að fara fram í Tókýó,“ sagði hún reið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert