Foreldrar vísi fram sakavottorði

Íþróttalögum var breytt í vor til að auka öryggi barna …
Íþróttalögum var breytt í vor til að auka öryggi barna og ungmenna. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Ungmennafélag Íslands vekur athygli á því í nýjasta fréttabréfi sínu að forsvarsmenn íþrótta- og ungmennafélaga þurfi að ganga lengra í því að tryggja að starfsfólk og sjálfboðaliðar sem fari með umsjón barna og ungmenna hafi ekki hlotið refsidóm fyrir ákveðin brot.

Breytingar á íþróttalögum frá því í vor fela í sér að íþróttafélögum sé óheimilt að ráða til starfa fólk sem hlotið hefur refsidóm vegna kynferðis- eða annarra ofbeldisbrota, eða brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni á síðastliðnum fimm árum. UMFÍ bendir á að lögin nái jafnt til starfsfólks sem og sjálfboðaliða sem falin sé umsjón með börnum og ungmennum undir 18 ára aldri.

Sem dæmi nefnir UMFÍ að þeir foreldrar sem fari í ferðir með börnum sem umsjónaraðilar skuli krafðir um framvísun sakavottorðs. Er það reynsla UMFÍ að félög hafi verið dugleg við að óska eftir sakavottorðum í tengslum við ráðningu á þjálfurum en að vekja þurfi athygli á því að ákvæðið í lögum hafi mun víðtækari áhrif.

UMFÍ á í samskiptum við yfirvöld um að auðvelda þurfi aðgengi félaganna að sakaskrá og sakavottorðum. Rafræn skráning sakavottorða sé lykillinn að því og geri stjórnendum kleift að ráða starfsfólk og sjálfboðaliða sem hæfi börnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert