Björgvin í öðru sæti á Englandi

Björgvin Snær Magnússon, lengst til vinstri, með silfurverðlaun sín.
Björgvin Snær Magnússon, lengst til vinstri, með silfurverðlaun sín. Ljósmynd/Karatesamband Íslands

Ísland átti fjóra keppendur á Central England Karate Open í Worcester á Englandi nú um helgina, en hópinn skipuðu þau Aron Bjarkason, Björgvin Snær Magnússon, Ronja Halldórsdóttir og Nökkvi Snær Kristjánsson.

Mótið skipa stóran sess í íþróttinni á Bretlandseyjum þar sem mótið telst úrtökumót fyrir enska landsliðið.

Björgvin Snær Magnússon náði besta árangri íslensku keppendanna en hann keppti til úrslita í -63 kg. flokki 14 til 15 ára og varð í öðru sæti.

Keppendur Íslands kepptu allir í unglingaflokkum en um næstu helgi fer stór hópur keppenda á Norðurlandamótið í Danmörku og var ákveðið að Norðurlandamótsfarar færu ekki til Englands þessa helgina.

Mótin tvö eru síðustu erlendu verkefni landsliðsins á árinu en undanfarið hefur árangur landsliðsins verið mjög góður. Ingólfur Snorrason, landsliðsþjálfari, var með í för.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert