51 árs bið senn á enda?

Patrick Mahomes og liðsfélagar hans í Kansas City Chiefs þykja …
Patrick Mahomes og liðsfélagar hans í Kansas City Chiefs þykja líklegastir til þess að verða meistarar í NFL-deildinni. AFP

Kansas City Chiefs er það lið sem þykir líklegast til þess að fara með sigur af hólmi í Ofurskálarleiknum samkvæmt veðbönkum í bandarísku NFL-deildinni í ruðningi. Í kvöld fara fram úrslitaleikir í Ameríkudeildinni og Þjóðardeildinni og þá kemur í ljós hvaða tvö lið mætast í Ofurskálarleiknum fræga.

New England Patriots, ríkjandi meistarar, féllu úr leik á „Wild Card“-helginni svokölluðu en þar mættu Patriots liðinu með sjötta besta árangurinn í Ameríkudeildinni, Tennessee Titans, og töpuðu nokkuð óvænt. Leikstjórnandinn Tom Brady fær því ekki tækifæri til þess að  verja titilinn en hann hefur níu sinnum komist í Ofurskálarleikinn, oftar en nokkur annar.

Í úrslitum Ameríkudeildarinnar mætast Kansas City Chiefs og Tennessee Titans. Chiefs unnu 14 leiki á tímabilinu og töpuðu einungis fjórum á meðan Titans unnu 9 leiki og töpuðu sjö. Chiefs enduðu í öðru sæti Ameríkudeildarinnar á meðan Titans enduðu í því sjötta og því Chiefs líklegri sigurvegarar í Ameríkudeildinni.

Í Þjóðardeildinni mætast Green Bay Packers og San Francisco 49ers. Packers unnu 13 leiki og töpuðu aðeins þremur, líkt og 49ers. 49ers enduðu í efsta sæti deildarinnar og Packers í því öðru og því mætast bestu lið deildarinnar í Þjóðardeildinni. Flestir spá því að 49ers fari með sigur af hólmi en það má aldrei afskrifa Aaron Rodgers, leikstjórnanda Packers.

Ofurskálarleikurinn fer svo fram 2. febrúar á heimavelli Miami Dolphins í Flórída. Af þeim liðum sem eftir eru í úrslitakeppninni hefur 49ers oftast orðið meistari eða fimm sinnum. Packers hafa orðið meistarar fjórum sinnum. Chiefs hafa einu sinni fagnað sigri en Titans hafa aldrei orðið meistarar.

Öll liðin hafa hins vegar komist í Ofurskálarleikinn. 49ers léku síðast til úrslita árið 2013 og urðu meistarar. Packers urðu síðast meistarar árið 2011 þegar liðið komst síðast í Ofurskálarleikinn en þá lagði liðið Pittsburgh Steelers í úrslitum. Titans hafa aðeins einu sinni komist í Ofurskálarleikinn en það var árið 2000 þegar liðið tapaði 23:16 fyrir St. Louis Rams. Kansas City urðu meistarar í fyrsta og eina skiptið árið 1969 og biðin því orðin ansi löng hjá líklegum sigurvegurum í ár.

Aaron Rodgers er einn af bestu leikstjórnendum í sögu deildarinnar …
Aaron Rodgers er einn af bestu leikstjórnendum í sögu deildarinnar og því aldrei hægt að afskrifa lið Green Bay Packers í baráttunni um meistaratitilinn. AFP
mbl.is