Glassman selur CrossFit

Greg Glassman, upphafsmaður og fyrrverandi forstjóri CrossFit.
Greg Glassman, upphafsmaður og fyrrverandi forstjóri CrossFit. Ljósmynd/Aðsend

Greg Glassman, fyrrverandi framkvæmdastjóri CrossFit, hefur selt fyrirtækið. Nýr eigandi þess er Eric Roza og tekur hann jafnframt við stöðu framkvæmdastjóra.

Þetta tilkynnti Dave Castro, framkvæmdastjóri Heimsleikanna í CrossFit, aðildarfélögum CrossFit í dag, auk þess sem Eric Roza hefur birt tilkynningu sama efnis á Twitter. Roza hefur verið hluti af crossfit-samfélaginu í tíu ár og er stofnandi CrossFit Sanitas í Boulder í Colorado í Bandaríkjunum.

Glassman sagði af sér í kjölfar þess að hann var harðlega gagnrýndur fyrir athugasemdir sem hann lét falla í tengslum við dauða Bandaríkjamannsins George Floyd. Í kjölfarið hefur fjöldi crossfit-íþróttafólks fordæmt stjórnunarhætti innan fyrirtækisins og afhjúpað karllæga menningu innan íþróttarinnar.

Í yfirlýsingu sinni segir Roza að sýn sín sé einföld: að rasismi og kynjamisrétti séu andstyggileg og eigi engan stað innan crossfit-heimsins. 

Meðal þeirra íþróttamanna sem höfðu fordæmt CrossFit og heitið því að segja skilið við íþróttarinnar yrðu breytingar ekki gerðar er tvöfaldi heimsmeistarinn Katrín Tanja Davíðsdóttir, en hún hætti við þátttöku í Heimsleikum þessa árs. Samkvæmt færslu á Instagram er Katrín Tanja vongóð í ljósi fregna af nýjum eiganda og framkvæmdastjóra CrossFit, en hún hefur ekki tilkynnt um neinar ákvarðanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert