Brady í úrslit með Tampa Bay

Tom Brady fagnar sigrinum í gær.
Tom Brady fagnar sigrinum í gær. AFP

Leikstjórnandanum Tom Brady tókst í gærkvöld að fara í úrslit NFL-deildarinnar í ameríska fótboltanum, Super Bowl, með Tampa Bay Buccaneers á sínu fyrsta ári hjá félaginu. 

Tampa Bay vann Green Bay Packers í undanúrslitum 31:26 en Green Bay hafði leikið mjög vel á tímabilinu. 

Tampa Bay mætir meisturunum í Kansas City Chiefs sem hafa verið mjög sannfærandi á tímabilinu og vann nokkuð öruggan sigur á Buffalo Bills í nótt 38:24. 

Í úrslitum mætast því sigursælasti leikstjórnandi allra tíma, Tom Brady, og Patrick Mahomes sem hefur slegið í gegn sem leikstjórnandi Kansas City og er ein skærasta stjarnan í dag.

Kansas City á því möguleika að vinna annað árið í röð en það hefur ekki gerst í NFL síðan 2004. Þá var það New England Patriots með Tom Brady sem leikstjórnanda. 

Brady er á fertugasta og fjórða aldursári og hefur sex sinnum orðið meistari með New England. Síðasta sumar ákvað hann að róa á önnur mið sem vakti skiljanlega mikla athygli. Þegar keppnistímabilið hófst þótti Tampa Bay ekki vera eitt af fjórum sigurstranglegustu liðunum hjá veðbönkum og þessi árangur er því enn ein viðbótin við afrekaskrá Brady. 

Patrick Mahomes á ferðinni í nótt.
Patrick Mahomes á ferðinni í nótt. AFP
mbl.is