Tvö mótsmet og gríðarleg spenna

Elísabet Rut Rúnarsdóttir vann sleggjukast eftir spennandi keppni.
Elísabet Rut Rúnarsdóttir vann sleggjukast eftir spennandi keppni. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Keppnin var gríðarlega hörð í sleggjukasti á 95. Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum á Þórsvelli á Akureyri í dag þegar tvær bestu konur landsins mættust. Að lokum stóð Elísabet Rut Rúnarsdóttir uppi sem sigurvegari með kast upp á 59,51 metra á meðan Vigdís Jónsdóttir varð önnur með 59,37 metra kast.

Sprettharðasta kona Íslandssögunnar, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, kom fyrst í mark í 200 metra hlaupi. Hún hljóp á 24,03 sekúndum og var hálfri sekúndu á undan Tiönu Ósk Whitworth sem varð önnur.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir vann í 200 metra hlaupi.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir vann í 200 metra hlaupi. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Glódís Edda Þuríðardóttir setti nýtt mótsmet í 100 metra grindahlaupi er hún kom í mark á 13,46 sekúndum. Glódís er aðeins á 18. aldursári. Hún kom einnig fyrst í mark í 400 metra hlaupi er hún hljóp á 56,90 sekúndum.

Þá gerði Irma Gunnarsdóttir mótsmet í þrístökki en hún stökk lengst 12,89 metra.

María Rún Gunnlaugsdóttir kastar spjóti á Akureyri í dag.
María Rún Gunnlaugsdóttir kastar spjóti á Akureyri í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert