Biles: Mistök að mæta á Ólympíuleikana

Simone Biles er ein sigursælasta fimleikakona sögunnar.
Simone Biles er ein sigursælasta fimleikakona sögunnar. AFP

Simone Biles, ein fremsta fimleikakona sögunnar, segir að það hafi verið mistök að taka þátt í Ólympíuleikunum í Tókýó síðasta sumar. Þetta kom fram í viðtali hennar við New York Magazine.

Biles komst í úrslit í alls sex greinum í fimleikakeppni Ólympíuleikanna í Tókýó en hætti keppni í fjórum þeirra vegna andlegra erfiðleika. Hún fékk brons á jafnvægisslá í Tókýó og silfurverðlaun í liðakeppni með Bandaríkjunum.

Hún er 24 ára gömul en hún vann til fernra gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu árið 2016 og höfðu margir vonast til þess að hún myndi leika sama leik í Japan.

„Það voru mistök að taka þátt á Ólympíuleikunum miðað við allt sem ég var búin að ganga í gegnum undanfarin sjö ár,“ sagði Biles.

Biles var misnotuð kynferðislega af Larry Nassar, fyrrverandi lækni bandaríska fimleikasambandsins, en hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir brot sín gegn bandarískum fimleikakonum árið 2017.

„Ég var staðráðinn í því að láta hann ekki ræna mig gleðinni í því sem ég var að gera. Ég var búin að byrgja þetta inn í mér í langan tíma og að lokum varð eitthvað undan að láta.

Ég fann fyrir meira stressi, eftir því sem leikarnir nálguðust, og sjálfstraustið var ekki eins og það var vanalega eftir langar og strangar æfingar.

Ég veit að ég þarf að gera meira vegna húðlitar míns og það fylgir því líka mikil pressa,“ bætti Biles við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert