Uppbygging þjóðarleikvanga í nýjum stjórnarsáttmála

Landsliðs Íslands í körfuknattleik og handknattleik eru heimilislaus og er …
Landsliðs Íslands í körfuknattleik og handknattleik eru heimilislaus og er brýn þörf á nýjum þjóðarleikvangi inniíþrótta hér á landi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Unnið verður áfram að uppbyggingu nýrra þjóðarleikvanga fyrir íslenskt afreksíþróttafólk en þetta kemur fram í nýjum stjórnarsáttmála VG, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sem undirritaður var á Kjarvalsstöðum í Reykjavík í dag.

Íslenskt íþróttalíf mun nú heyra undir Framsóknarmanninn Ásmund Einar Daðason sem verður ráðherra í nýju skólamála- og barnaráðuneyti.

Ásmundur var félagsmálaráðherra í síðustu ríkisstjórn en tekur við öðrum verkefnum nú, samhliða þeim sem hann fékkst við í félagsmálaráðuneytinu.

Í nýjum stjórnarsáttmála kemur einnig fram að unnið verði áfram að því að efla umgjörð um afreksstarf íþróttafólks með afreksíþróttasjóð og ferðajöfnunarsjóð til hliðsjónar.

Íþróttir í nýjum stjórnarsáttmála:

  • Unnið verður að því í samstarfi við sveitarfélög að jafna tækifæri barna til að stunda tómstundastarf óháð efnahag, aðstæðum og búsetu.
  • Stutt verður við íþróttahreyfinguna til að jafna stöðu karla og kvenna í íþróttum.
  • Unnið verður áfram að uppbyggingu þjóðarhallar inniíþrótta og þjóðarleikvanga.
  • Áfram verður unnið með félagasamtökum að því að efla umgjörð um afreksstarf íþróttafólks, þar sem verður m.a. litið til eflingar afreksíþróttasjóðs og ferðajöfnunarsjóðs.
  • Sett verður stefna um öflugar rafíþróttir hér á landi, ásamt því að efla skipulagt rafíþróttastarf og byggja upp innviði.
mbl.is