Ólympíumeistari sem þjálfaði Gróttu lést úr Covid-19

Szilveszter Csollány.
Szilveszter Csollány. AFP

Ungverski fimleikaþjálfarinn Szilveszter Csollány, gullverðlaunahafi í fimleikum á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000, er látinn af völdum kórónuveirunnar, 51 árs að aldri.

Csollány fékk gullverðlaun í hringjum á leikjunum í Sydney og hafði áður fengið silfurverðlaun á leikunum í Atlanta árið 1996. Hann varð heimsmeistari í hringjum í Debrecen árið 2002 og vann til fimm silfurverðlauna á heimsmeistaramótum. Þá varð hann Evrópumeistari árið 1998.

Csollány þjálfaði hjá fimleikadeild Gróttu á árunum 2011-2013 og þjálfaði einnig í Austurríki. 

Dagblaðið Blikk skýrði frá því að Csollány hefði verið andvígur bólusetningum vegna kórónuveirunnar en hefði hinsvegar verið bólusettur seint á síðasta ári. Hann veiktist í desember og þurfti að fara í öndunarvél á sjúkrahúsi í kjölfarið. Blikk sagði að of skammur tími hefði liðið frá bólusetningunni þar til hann veiktist til þess að það kæmi að gagni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert